Saga Barnaspítalans

linkur

1902

Systur úr reglu St. Jóseps setja á stofn Landakotsspítala. Sérstakar barnastofur voru á spítalanum, ein fyrir drengi og önnur fyrir telpur.

1957

Barnadeild Landspítala opnuð 19. júní á þriðju hæð gamla spítalans.
Hringurinn lagði fram mikla fjármuni í stofnkostnað við opnun deildarinnar.

1961

Barnadeild formlega opnuð á Landakoti.

1965

Barnadeild Landspítalans fær stærra húsnæði, 2. og 3. hæð E-álmu.
Nafni breytt í Barnaspítali Hringsins í þakklætis- og virðingarskyni við Hringinn.

1970

Barnageðdeildin við Dalbraut var opnuð 1. ágúst, sem göngudeild. Í upphafi var hún kölluð Geðdeild Barnaspítala Hringsins og var það fyrst og fremst í virðingar- og þakklætisskyni við Kvenfélagið Hringinn sem hafði lagt mikið af mörkum þegar deildin var sett á stofn.

1971

Legudeild BUGL var opnuð í mars. Þar voru upphaflega rúm fyrir 11 börn á aldrinum 5-13 ára. Seinna á árinu, í nóvember, var opnuð dagdeild. Hún var með rúm fyrir 7-9 börn á aldrinum 2-9 ára og var viðvera þeirra milli kl. 9-15 á virkum dögum.

1976

Vökudeild Landspítalans tekur til starfa í nýju húsnæði Kvennadeildarinnar. Hringurinn styður dyggilega við þennan áfanga Barnaspítalans.

1980

Viðvera foreldra er orðin frjáls á barnadeildum landsins. Áður höfðu foreldrar haft takmarkað leyfi til að vera hjá börnum sínum ef þau þurftu að leggjast á spítala.

1987

Legudeild fyrir unglinga á BUGL opnuð. Barnageðdeildin sinnti börnum til 16 ára aldurs en legudeildin einungis til 13 ára. Það var því brýn þörf að koma fram vistunarúrræði fyrir börn yfir þeim aldri.

1988

Stofnuð ný skóladeild við Dalbrautarskólann. Fram að þessum tíma hafði kennari varið ráðinn í hlutastarf til að sinna menntun inniliggjandi skjólstæðinga og heyrði það undir reglur menntamálaráðuneytis um sérkennslu.

1995

Barnadeildin á Landakoti flytur á Borgarspítalann (Sjúkrahús Reykjavíkur). Thorvaldsensfélagið styður dyggilega við þennan flutning deildarinnar í mun hentugra húsnæði.

1997

Hjartaaðgerðir á börnum hefjast með skipulögðum hætti hér á landi.

2003

26. janúar er nýtt hús Barnaspítala Hringsins vígt við hátíðlega athöfn en þennan dag átti Hringurinn 99 ára afmæli. Bráðamótttaka barna, barnadeildir í Fossvogi og á Landspítalanum, vökudeildin, göngudeild, dagdeild og önnur starfsemi flytur starfsemi sína í nýtt hús Barnaspítalans.

2004

Rjóður, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og fötluð börn, hefur starfsemi sína. Velferðarsjóður barna kostaði endurbætur á húsnæðinu og kaup á tækjum og húsgögnum og hefur verið dyggur stuðningsaðili Rjóðurs frá upphafi.