Hlutverk Barnaspítala Hringsins

Sálfræðiþjónusta
Á Barnaspítalanum er veitt sérhæfð, fjölskyldumiðuð heilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga að 18 ára aldri. Í allri þjónustu er áhersla lögð á að greina þarfir og auka vellíðan skjólstæðinganna, með gildi Landspítala um umhyggju, fagmennsku, öryggi og framþróun að leiðarljósi. Samskipti sem byggja á virðingu og stuðningi við börnin og fjölskyldur þeirra er mikilvægur þáttur í starfsemi Barnaspítalans.

Hlutverk

Barnaspítalinn hefur forystu í sérhæfðri heilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga á Íslandi. Á Barnaspítalanum er veitt fjölbreytt þjónusta sem krefst mikillar sérþekkingar og samvinnu fagfólks. Þjónustan beinist að líkamlegum, andlegum og félagslegum þörfum barnanna og velferð fjölskyldunnar.

Með fjölbreyttri rannsóknarstarfsemi og símenntun tryggir fagfólk að nýjasta þekking á sviði heilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga sé viðhöfð hverju sinni.

Fagfólk Barnaspítalans annast grunn- og framhaldsmenntun heilbrigðisstétta hvað varðar heilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga. Þá veitir fagfólk einnig ráðgjöf til annarra stofnana sem sinna málefnum barna og unglinga

FJÖLSKYLDAN Í FORGRUNNI

Á Barnaspítalanum er stöðugt unnið að því að bæta þjónustu við fjölskyldur. Allur aðbúnaður, þjónusta, og samskipti miðast að því að mæta þörfum barna og fjölskyldna þeirra samkvæmt aldri og þroska barnanna. Keppst er að því að veita þeim sem bestan aðbúnað meðan á sjúkrahúsdvöl stendur og gefa fjölskyldum barna með heilsuvanda kost á samfelldri þjónustu af göngudeild. Barnaspítalinn á nokkrar íbúðir sem foreldrar búsettir á landsbyggðinni geta leigt meðan barnið þeirra dvelur á spítalanum.

TEYMISVINNA FAGFÓLKS

Starfsemin á Barnaspítalanum hefur á undanförnum árum þróast til sérgreinaskiptingar og teymisvinnu og þar með aukinni göngudeildarstarfsemi. Þverfagleg teymi fagfólks veita börnum með heilsuvanda (0-18 ára) og fjölskyldum þeirra sérhæfða þjónustu. Með þessu móti gefst tækifæri til að samhæfa fræðslu, meðferð og þjónustu í samvinnu við skjólstæðingana.

RÉTTINDI SJÚKLINGA

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er barn hver sá einstaklingur sem ekki hefur náð 18 ára aldri. Við skipulag á starfsemi Barnaspítalans er tekið mið af stöðlum fyrir börn á sjúkrahúsum. Þar kemur fram:

1. Að barn eigi rétt á að hafa foreldra eða einhvern nákominn hjá sér meðan á sjúkrahúsdvöl stendur.

2. Að barn eigi að liggja á deild með öðrum börnum en ekki á deild með fullorðnum.

3. Að umgangast skuli barn með virðingu og skilningi og virða friðhelgi einkalífs þess. Á Barnaspítalanum er lögð rík áhersla á að réttindi sjúklinga séu virt í hvívetna. Allir landsmenn eiga rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma. Öll mismunun vegna kynferðis, tungu, trúarbragða, skoðana, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu er óheimil. Mikilvægt er að sjúklingar og aðstandendur gæti þagmælsku um málefni annarra sjúklinga sem þeir kunna að fá vitneskju um, heyra eða sjá á Barnaspítalanum.

ÞAGNARSKYLDA STARFSFÓLKS

Allt starfsfólk og nemendur heilbrigðisþjónustunnar er bundið þagnarskyldu og farið er með málefni sjúklinga af fyllsta trúnaði. Starfsfólki Barnaspítalans ber að gæta fyllstu þagmælsku um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum.

Landspítali er háskólasjúkrahús og nemendur í heilbrigðisfræðum og tengdum greinum stunda hluta af námi sínu á spítalanum. Nemendur fylgjast með og taka þátt í daglegri meðferð sjúklinga og eru ávallt á ábyrgð og undir handleiðslu leiðbeinenda sinna.

Vinsamlegast athugið að sjúkrahúsið getur ekki borið ábyrgð á peningum eða öðrum verðmætum svo sem símum, tölvum og öðru sem sjúklingar eða aðstandendur hafa meðferðis.