Fólkið

Á Barnaspítalanum starfar mikið af alls konar fólki af öllum stærðum og gerðum. Allt þetta fólk á það sameiginlegt að hafa einhvern tímann verið börn og vilja hjálpa börnum að láta sér batna og líða betur. Sumir eiga líka börn sjálfir, jafnvel börn sem hafa þurft á hjálp Barnaspítalans og starfsfólksins þar að halda.

Flestir starfsmenn Barnaspítalans hafa menntað sig sérstaklega til að aðstoða þá sem eru veikir og sumir jafnvel menntað sig sérstaklega til að hjálpa veikum börnum. Á spítalanum vinna t.d. hjúkrunarfræðingar, læknar, sjúkraliðar, félagsráðgjafar, grunnskólakennarar, iðjuþjálfar, leikskólakennarar, leikskólasérkennarar, listmeðferðarfræðingar, meðferðarfulltrúar, næringarfræðingar, prestar, sjúkraþjálfarar, sálfræðingar og þroskaþjálfar auk annarra sem vinna við sérhæfð þjónustustörf. Allir eru þarna til að hjálpa þér og láta þér líða betur.

Það er frekar auðvelt að þekkja starfsfólk spítalans. Það gengur nefnilega allt í svipuðum fötum sem eru eiginlega eins og einkennisbúningur fyrir spítalann, svipað og löggur eða slökkviliðsmenn. Flestir klæðast hvítum sloppum, sumir hvítum sloppum og buxum. Hvítu fötin eru notuð til að passa upp á að fötin séu alltaf hrein. Það er mjög mikilvægt svo að engir sýklar geti ferðast á milli veikra barna með því að lauma sér í fötin hjá starfsfólkinu.

NEMAR Á BARNASPÍTALANUM

Það eru margir sem vilja læra að hjálpa öðrum og sérstaklega hvernig þeir eiga að hjálpa börnum að líða betur. Þess vegna koma margir nemar á Barnaspítalann til að fá kennslu og verklega þjálfun. Flestir nemarnir koma frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Með því að sýna þeim skilning og þolinmæði hjálpum við þeim að læra. Þannig getum við hjálpað öðrum börnum sem eru veik með því að hjálpa nemunum sem munu annast þau í framtíðinni.

Framkvæmdastjóri Barnaspítala Hringsins og BUGL heitir Jón Hilmar Friðriksson og er læknir.