Netið

Netið
 

Fyrir hverja?

Sjúklingar og aðstandendur á Barnaspítala geta fengið aðgang að „gestaneti“ spítalans sem er virkt á flestum starfsstöðvum hans. Þannig er hægt að komast í tölvupóstsamskipti, nota samskiptamiðla og vafra á Netinu.
 

Hvað þarftu að gera?

Hringja í þjónustuborð heilbrigðis- og upplýsingatæknisviðs í s: 543- 1550 og óska eftir aðgangi.

Starfsemi

Að tengjast gestanetinu

1. Notandi tengir sig við LSH – gestir.
2. Notandi opnar vefvafra (Internet Explorer, Firefox, Chrome, Safari) og fer á einhverja vefsíðu. Vafrinn setur upp tilkynningu um að notandi sé að tengjast „hættulegri síðu“ en svo er þó ekki.
3. Notandi smellir á „Proceed anyway„ eða “Continue anyway„ og lendir þá á síðu gestanets Landspítala.
4. Notandi slær inn notandanafn og lykilorð sem gefið var upp í síma 543 1550 og tengist þá gestanetinu.

Tilmæli varðandi notkun á Netinu

Veraldarvefurinn er eins og þekkt er frábært verkfæri til að miðla þekkingu, til tengslamyndunar og til dægrastyttingar.

Það er þess vegna ekki að undra að foreldrar sem dvelja með börn sín á Barnaspítalanum noti Netið til að halda tengslum við vini og ættingja, gefa upplýsingar um barnið, sjúkdóma og sína eigin líðan. Þetta er gert með bloggi, heimasíðum, dagbókum, Facebook og öðrum þess háttar síðum.

Með þessum skrifum viljum við starfsfólk Barnaspítalans benda á nokkrar einfaldar leiðbeiningar varðandi skrif á Netið um þá skjólstæðinga sem tengjast Barnaspítalanum. Er þetta gert með hag skjólstæðinga okkar að leiðarljósi.

Við biðjum um að þið hafið eftirfarandi í huga:
  • talið ekki um aðra sjúklinga, aðstandendur eða starfsfólk nema með leyfi viðkomandi.
  • setjið ekki inn myndir af öðrum börnum, aðstandendum eða starfsfólki nema með leyfi viðkomandi.
  • setjið ekki upplýsingar úr sjúkraskrá á Netið.
  • setjið ekki upplýsingar eða myndir af ykkar eigin barni án þess að íhuga vandlega hvort það þjóni hagsmunum barnsins.
  • virðið friðhelgi einkalífsins.

Stjórnendur Barnaspítalans hafa einnig óskað eftir því við starfsfólk deildarinnar sem notar Facebook í frístundum sínum að það afþakki beiðni skjólstæðinga, foreldra og aðstandenda um að gerast vinir á Facebook. Það er gert til að vernda einkalíf starfsmanna og eru skjólstæðingar og aðstandendur beðnir að virða það.

Hins vegar viljum við gjarnan ræða beint við foreldra og aðra aðstandendur þegar þörf er á inni á sjúkrahúsinu.
Vert er að benda á að starfsmenn eru bundnir þagnarskyldu og ræða ekki um sjúklinga eða aðstandendur þeirra á Netinu.
Við viljum að Barnaspítalinn verði áfram öruggur og góður staður að dvelja á fyrir skjólstæðinga og starfsfólk. Þess vegna er mikilvægt að virða trúnað og þagnarskyldu.

Við vonum að allir sýni skilning og virði þessar leiðbeiningar.