Í stuttu máli

Hvað er athyglisbrestur og ofvirkni?
Taugaþroskaröskun sem hefur áhrif á einbeitingu og hegðunarstjórnun.

Algeng einkenni: 
Athyglisbrestur, ofvirkni og hvatvísi.

Greining: 
Þroskasaga, greiningarviðtal, spurningalistar og taugasálfræðilegar athuganir.

Algengustu meðferðir:
Lyfjameðferð, atferlisþjálfun og fræðsla fyrir foreldra.pHvað er athyglisbrestur og ofvirkni?

Athyglisbrestur og ofvirkni, oft kallað ADHD, er taugaþroskaröskun sem kemur yfirleitt snemma fram og getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf, nám og félagslega aðlögun. Nýjar rannsóknir sýna að 5-10% af börnum glíma við ADHD. Tíðni er talin hærri hjá drengjum, þrír drengir á móti hverri einni stúlku. Nýjar rannsóknir benda þó til að fleiri stúlkur séu með ADHD en þær koma síður til greiningar.

Orsök

ADHD stafar af truflun í boðefnakerfi heila á stöðum sem gegna mikilvægu hlutverki í stjórn hegðunar. Þessi truflun orsakast að mestu leyti af erfðaþáttum. Umhverfisþættir hafa þó einnig áhrif.

Einkenni

Athyglisbrestur með og án ofvirkni (ADHD og ADD)Athyglisbrestur: einbeitingaerfiðleikar, eru auðtrufluð, gleymin, hlustun ekki góð, skipulagserfiðleikar, erfitt með tímaskyn, mjög hæg og róleg, vanvirk

Ofvirkni

eiga erfitt með að sitja kyrr, iða í sæti, fiktsöm, stöðugt á ferð og flugi, tala mikið og hátt

Hvatvísi er að...

eiga erfitt með að bíða, grípa fram í, ryðjast inn í leik og samræður, tala og framkvæma án þess að hugsa

Greining

Greining á ADHD er byggð á mörgum þáttum. Þroskasaga er mjög mikilvæg, greiningarviðtal, spurningalistar og taugasálfræðilegar athuganir.

Meðferð

Meðferð er ákvörðuð eftir aldri barns og samsetningu fyrrgreindra einkenna. Helstu meðferðarform eru lyfjameðferð, atferlisþjálfun, viðtalsmeðferð, listmeðferð, leikmeðferð, fjölskyldumeðferð, fræðsla fyrir foreldra og hópmeðferð.

Hvað getur þú sjálf/ur gert?

Þegar einkenni eru væg og skerðing í lágmarki er margt hægt að gera til þess að bæta ástandið. Til dæmis:

 • Góð samvinna við skóla
 • Aukið utanumhald og skipulag á heimili
 • Draga úr skömmum og auka hrós þegar vel gengur
 • Fá útrás fyrir hreyfiþörf

Leitaðu þér fljótt aðstoðar ef…

Ef einkenni eru mikil og skerðing hefur meiri áhrif á daglegt líf, s.s erfiðleikar í námi og félagstengslum, er mikilvægt að leita sér aðstoðar. Þeir sem hægt er að hafa samband við eru til dæmis:

 • Umsjónarkennari
 • Námsráðgjafi
 • Skólahjúkrunarfræðingur
 • Heilsugæslulæknir
 • Þjónustumiðstöðvar í Reykjavík eða félags- og skólaþjónusta í öðrum sveitafélögum

Þessir aðilar taka að sér það hlutverk að meta hver næstu skref eru.

Leitaðu þér strax aðstoðar ef…

Þegar um er að ræða alvarleg einkenni, eins og áhættuhegðun og að stofna lífi sínu eða annarra í hættu, er nauðsynlegt að hafa samband við fagaðila sem fyrst. Hægt er að hafa samband við:
 • Heilsugæslulækni
 • Sérfræðilækni ef hann er til staðar
 • Bráðamóttöku barna
 • Bráðamóttöku BUGL