Hvað er þvagfærasýking?
Þegar bakteríur valda bólgu í þvagfærum eða nýrum.
Algeng einkenni
Kviðverkir, sviði og þvaglát.
Greining
Þvagprufa.
Algengasta meðferð
Sýklalyf.
Þegar bakteríur (sýklar) valda bólgu í þvagblöðru (blöðrubólgu) eða nýrum (nýrnasýkingu) er einstaklingurinn með þvagfærasýkingu.
Um það bil 1–2% drengja og 3–5% stúlkna fá þvagfærasýkingu á fyrstu 10 árum ævinnar.
Bakteríur geta einnig tekið sér bólfestu í þvagfærum án þess að valda sýkingu. Þetta er saklaust ástand sem er algengt hjá stúlkum á grunnskólaaldri.
Bakteríur sem valda þvagfærasýkingu eru flestar til staðar í þörmum heilbrigðra einstaklinga.
Vegna þess hve þvagrásaropið er nálægt endaþarminum eiga bakteríurnar oft greiða leið upp í blöðruna. Þetta er algengasta smitleiðin, en ekki er nákvæmlega vitað af hverju sumir einstaklingar eru næmari en aðrir fyrir þessari sýkingu. Þvagfærasýking er ekki smitandi.
Eldri börn fá iðulega kviðverki, sviða við þvaglát, pissa oft og gjarnan lítið í einu. Þau þurfa skyndilega að pissa og óhöpp geta orðið bæði að degi til og á næturnar hjá börnum sem eru hætt að missa þvag. Hiti, óværð, uppköst, niðurgangur og of lítil þyngdaraukning eru algeng einkenni hjá börnum á fyrsta ári.
Þvagfærasýkingu er aðeins hægt að greina með ræktun þvags. Smásjárskoðun þvags, þar sem leitað er að bakteríum og ummerkjum bólgu, eykur öryggi greiningarinnar.
Mikilvægt er að koma sýninu sem fyrst til rannsóknar en ef töf verður á því skal geyma þvagsýnið á köldum stað.
Eldri börn pissa í glas (miðbunuþvag) eftir að svæðið kringum þvagrásina hefur verið þrifið með hreinum klút og vatni. Hjá yngri börnun getur oft verið erfitt að taka miðbunuþvag og má þá taka sýnið beint.
Svæðið kringum þvagrásina er þrifið með hreinum klút og volgu vatni. Þurrkað vel. Því næst er sérstakur sjálflímandi þvagpoki (fæst í öllum lyfjabúðum) festur á húðina kringum þvagrásaropið. Best er að gefa barninu vel að drekka skömmu áður en pokinn er settur á til þess að auka þvagmyndun. Vegna hættu á því að þvagsýnið mengist með bakteríum af yfirborði líkamans, er nauðsynlegt að skipta um poka á 30–60 mínútna fresti þar til þvag næst í pokann. Ef grunur er um mengun þarf oft að endurtaka þvagprufu með annarri aðferð.
Til þess að forðast það að húðbakteríur mengi þvagsýnið er grönn slanga úr mjúku plastefni þrædd gegnum þvagrásina upp í blöðruna. Þvagið fer svo beint í dauðhreinsað ílát.
Þvagblaðran nær upp í neðri hluta kviðarholsins í börnum á fyrsta ári. Þá er tæknilega auðvelt að ná þvagi með grannri nál, sem stungið er rétt fyrir ofan lífbeinið af lækni. Með þessu móti er nær útilokað að þvagsýnið mengist.
Allar þvagfærasýkingar eru meðhöndlaðar með sýklalyfjum sem annað hvort eru tekin inn eða gefin í æð. Eftir að þvagfærasýking hefur verið greind og meðhöndlun hafin þurfa börn oft að fara í sónarskoðun af nýrum og í völdum tilfellum einnig blöðrumyndatöku og ísótóparannsókn af nýrum. Rannsóknir eru gerðar til að athuga hvort barnið hafi meðfædda galla á þvagfærum og einnig til að meta hvort nýrun hafi hlotið skaða af þvagfærasýkingunni.