Hvað er hiti?
Eitt af varnarviðbrögðum líkamans.
Algeng einkenni
Hiti yfir 38°C mældur í endaþarm.
Greining
Mæla hita með hitamæli.
Algengasta meðferð
Halda vökva að barni, hitalækkandi lyf og hafa barn léttklætt.
Hiti hjá börnum er algengur og ekki alvarlegur í flestum tilfellum. Mikilvægt er að muna að hiti er ekki sjúkdómur heldur einkenni um undirliggjandi sjúkdóm og eitt af varnarviðbrögðum líkamans. Hiti er það þegar líkamshiti fer yfir eðlileg mörk, sem er kringum 37°C. Eðlilegur líkamshiti getur sveiflast dálítið yfir daginn og er yfirleitt lægri á morgnana. Hjá börnum í leik eða við grátur getur hitinn auðveldlega farið yfir 38°C án þess að um sjúklegt ástand sé að ræða.
Í heilanum er einskonar hitastýrikerfi líkamans og er því oft líkt við „thermóstat“ í heimahúsum. Hitastýrikerfið gefur skilaboð um að halda vissu hitastigi í líkamanum sem er þá venjulega kringum 37°C. Við veikindi endurstillist hitastýrikerfi heilans þannig að hitinn verður yfirleitt 38°C eða hærri og líkaminn gerir þá allt til að reyna viðhalda þeim hita. Hjá börnum yngri en þriggja mánaða getur líkamshitinn hins vegar lækkað vegna vanþroskaðs hitastýrikerfis. Einnig er rétt að benda á að börn með sýkingu geta verið með líkamshita innan eðlilegra marka.
Það ber alltaf að taka alvarlega þegar barn yngra en 3 mánaða fær 38°C hita eða hærri og hafa samband við lækni. Hins vegar er hiti í sjálfu sér ekki hættulegur en getur valdið barninu óþægindum og aukið önnur einkenni veikinda eins og þurrk og vanlíðan. Talið er að hiti um og yfir 42°C (mælt í endaþarmi) geti valdið barni skaða en svo hár hiti er afar sjaldgæfur.
Hitakrampar koma fyrir hjá um 4% barna, einkum hjá börnum yngri en 3 ára. Hitakrampar standa oftast stutt og valda ekki heilaskaða eða öðrum skemmdum. Þeir koma gjarnan í byrjun veikinda svo oft er erfitt að koma við fyrirbyggjandi meðferð með hitalækkandi lyfjum.
Margt bendir til að hiti sé hjálplegur til varnar sýkingum. Ýmis ónæmisfræðileg starfsemi virðist batna við hita á bilinu 37-40°C en versnar við hita yfir 40°C. Margar bakteríur fjölga sér einnig hægar við hita og framleiða minna af eiturefnum. Rannsóknir hafa jafnframt sýnt að hiti eykur verkun ýmissa sýklalyfja.
ORSÖK
Sýkingar af völdum veira og baktería eru algengasta ástæða hækkaðs hita hjá börnum. Veirusýkingar eru algengar hjá börnum en ekki er hægt að ráða af hæð hitans eða hitamynstri hvort um er að ræða veiru- eða bakteríusýkingu.
Aðrir sjúkdómar sem sjaldan valda hita eru: bólusetningar, gigtarsjúkdómar, áverkar á miðtaugakerfi, ofstarfsemi skjaldkirtils, vökvaskortur (þurrkur), skordýra- og slöngubit, eitranir af völdum lyfja, sýklalyf og illkynja sjúkdómar (krabbamein).
Eðlilegur hiti hjá börnum er oft hærri og sveiflast meira en hjá fullorðnum. Venjulega er talað um að barn sé með hita ef:
Greining hita felst í að mæla hita með hitamæli. Oft getur verið erfitt að mæla hita hjá börnum sérstaklega ef þau eru óvær og ósamvinnuþýð. Hins vegar er mikilvægt að vita nákvæmt hitastig barna þegar veikindi þeirra eru metin. Til eru endaþarmsmælar, munnmælar, mælar til að mæla í holhönd, eyrnamælar, snuðmælar og húð- eða ennismælar.
Einungis ætti að gefa hitalækkandi meðferð þeim börnum sem líður illa vegna hitans frekar en að miða meðferð við ákveðið hitastig. Það er því mikilvægt að horfa ekki eingöngu á hitatöluna.
Ytri kæling með vatni er sjaldan ráðlögð nema hitinn haldist yfir 41°C þrátt fyrir hitalækkandi lyf. Ekki skyldi nota ytri kælingu nema að hitalækkandi lyf hafi verið gefið fyrst. Hitastig vatnsins á að vera á bilinu 25-30°C.
Svörun við hitalækkandi meðferð, þ.e. ef hiti lækkar fljótt og barninu virðist líða betur, er ekki öruggt merki um að undirliggjandi sýking sé af saklausum toga. Til að útiloka alvarlega undirliggjandi sýkingu þarf læknir að skoða viðkomandi.
Hiti einn og sér er sjaldnast nægileg ástæða til að leita læknis nema ef barnið er yngra en þriggja mánaða eða það óeðlilega slappt.
Eftirtalin atriði geta bent til alvarlegrar undirliggjandi sýkingar:
– Barnið er óeðlilega slappt, ergilegt, erfitt að vekja eða ruglað.
– Barnið er með öndunarerfiðleika, útbrot samfara hitanum eða óþægindi við þvaglát.
– Barnið er með hita sem staðið hefur lengur en þrjá daga.
Hvað getur þú sjálf/ur gert?Gefið barninu ríkulega að drekka, haft það léttklætt, gefið því hitalækkandi lyf og leyfa því að hvílast. |
Leitaðu þér strax aðstoðar ef…Barn yngra en 3 mánaða fær hita, 38°C eða hærri.
|