Í stuttu máli

Hvað er hitakrampi? 
Hitakrampar eru krampar eða flog sem geta fylgt sótthita hjá börnum.

Algeng einkenni: 
Meðvitundarleysi, óp kemur frá barni og það stífnar upp.

Greining 
Skoðun og mat læknis.

Viðbrögð 
Ef barnið fær hitakrampa hringið í sjúkrabíll 112.

Hvað er hitakrampi?

Hitakrampar eru sérstök tegund krampa eða floga sem geta fylgt sótthita hjá börnum. Þeir eru mjög ógnvekjandi, sérstaklega fyrir þá sem aldrei hafa séð þá áður. Margir foreldrar tala um að þeim hafi liðið eins og að barnið væri að deyja meðan á krampanum stóð. Hitakrampar eru þó alveg saklausir og valda barninu ekki skaða.
Um það bil 5% barna á Íslandi fá a.m.k. einn hitakrampa á ævinni, oftast á aldrinum eins til þriggja ára. Börn undir eins árs fá sjaldnar krampa og börn eldri en sex ára mjög sjaldan.

Orsök

Orsakir hitakrampa eru ekki þekktar en vitað er að tilhneiging er til að hitakrampi erfist.

Einkenni

Hitakrampar líkjast öðrum krömpum að því leyti að barnið missir skyndilega meðvitund, óp kemur frá barni, það stífnar upp, augun renna uppávið og taktfastir rykkir eða kippir fara um líkamann. Oft blánar barnið kringum munninn, sérstaklega í byrjun krampans. Hitakrampar eru venjulega stuttir en geta þó staðið í nokkrar mínútur áður en þeir fjara út og barnið sofnar. Fyrir foreldra eru þessar mínútur oft eins og heil eilífð.

Greining

Skoðun og mat læknis.

Ef barnið fær hitakrampa

1. Verið róleg!

Barnið er ekki í lífshættu.

2. Snúið barninu á hlið eða grúfu!

Gangið úr skugga um að öndunarvegurinn sé opinn.

3. Komið í veg fyrir meiðsli!

Fjarlægið oddhvassa eða beitta hluti sem barnið gæti meitt sig á.

4. Ekki setja neitt uppí munninn á barninu!

Slíkt getur gert meiri skaða en gagn.

5. Takið tímann og fylgist vel með krampanum!

Getur hjálpað til með að greina hvað er á ferðinni.

6. Leitið ávallt til læknis eftir hitakrampa!

Hitakrampi getur stafað af alvarlegum sýkingum s.s. heilahimnabólgu, en oftast stafar hitinn af öðrum ástæðum.

Rannsóknir hafa sýnt að hitalækkandi lyf s.s. parasetamól og íbúfen draga lítið sem ekkert úr hættunni á að barn fái hitakrampa, jafnvel þótt hitanum sé haldið niðri. Þessi lyf eru þó notuð til að lækka háan hita, sérstaklega ef barninu líður illa vegna hitans eða vill ekki drekka. Yfirleitt eru börn sem fengið hafa hitakrampa ekki sett á flogaveikilyf.

Foreldrum barna sem hafa fengið hitakrampa er boðið upp á viðtal við hjúkrunarfræðing í taugateymi barna.

Hvað getur þú sjálf/ur gert?

Sjá að ofan.

Leitaðu þér strax aðstoðar ef…

Ef barnið fær hitakrampa hringið í sjúkrabíl 112!