Í stuttu máli

Hvað er RS veira?

Kvefveira sem veldur sýkingu í öndunarveginum.

Algeng einkenni:

Kvef og hósti, nefrennsli og nefstífla. Stundum hiti, sérstaklega hjá ungabörnum.

Greining:

Heilsufarssaga og líkamsskoðun, stundum er sýni tekið úr nefkoki.

Algengasta meðferð:

Halda næringu og vökva að barni, saltvatnsdropar í nasir, sjúga úr vitum og hitalækkandi/verkjastillandi.

Hvað er RS veira?

RS (Respiratory syncytial virus) er veira sem veldur sýkingu í öndunarveginum. Faraldrar af völdum hennar koma árlega á veturna og standa venjulega yfir í 2-5 mánuði. Hún getur valdið sýkingu í neðri hluta öndunarfæra sem einkennist af bólgu og aukinni slímmyndun í berkjum og berkjungum lungna. Hjá ungbörnum getur sýkingin valdið öndunarerfiðleikum vegna bólgu sem verður í smærri berkjum lungnanna. Mörg börn fá einnig eyrnabólgu samfara sýkingunni.

Hverjir sýkjast?

Um helmingur barna hafa smitast fyrir 1 árs aldur og um 95% barna hafa fengið RS sýkingu að minnsta kosti einu sinni fyrir 2-3ja ára aldur. Veirurnar valda ekki langvinnu ónæmi og þess vegna er algengt að einstaklingar sýkist á ný, t.d. í RS faröldrum. Fullorðnir geta einnig fengið þessa öndunarfærasýkingu.

Smit

Smithætta er mest eftir snertingu við smitaðan einstakling en veiran berst einnig með nefslími eða munnvatni, t.d. við hnerra og hósta. Árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir smit er tíður handþvottur sérstaklega eftir snertingu við smitaða barnið. Ekki er vitað nákvæmlega hversu lengi barnið smitar en það getur verið í 1-2 vikur.

Astmi og RS

Flest börn sem fá RS sýkingu og astmaöndun fá ekki astma seinna meir. Lítill hópur barna fær þó astmaöndun samfara kvefi. Ef astmaöndun endurtekur sig oftar en þrisvar þarf að taka afstöðu til þess hvort barnið hafi astma. Fáðu ráð varðandi þetta hjá lækninum þínum.

Orsök

RS veiran veldur kvefi og getur valdið bólgu og aukinni slímmyndun í berkjum og berkjungum lungna, kallað berkjungabólga.

Einkenni

Langflestir sem sýkjast fá í byrjun kvef og hósta, nefrennsli og svo nefstíflu. Hiti fylgir stundum sýkingunni. Einkennin ná í flestum tilfellum hámarki eftir 3-6 daga en sjúkdómslengd er 1-2 vikur.

Einstaka ungabarn, langveik börn eða astmaveik börn fá stundum kröftugri öndunarfæraeinkenni. Yfirleitt eru einkennin meira áberandi eftir því sem barnið er yngra.

Greining

RS veirusýking er oftast greind með heilsufarssögu barns og líkamsskoðun. Þurfi barnið á innlögn að halda er oft tekið sýni úr nefkoki til að staðfesta sýkinguna.

Meðferð

Sýklalyf virka ekki á RS veiruna og því felst meðferðin í því að draga úr óþægindum og einkennum. Í flestum tilfellum er RS sýkingin væg og hægt að meðhöndla börnin heima.

Heima:

– Ef nef er stíflað er æskilegt að nota saltvatnsdropa í nasir og sjúga slím úr vitum með nefsugu. Hjá stærri börnum má nota dropa sem minnka bjúg í nefi.

– Ef hiti er hár eða særindi vegna hósta er gefið hitalækkandi lyf/verkjalyf samkvæmt leiðbeiningum.

– Gæta þarf að því að barn drekki vel. Ef illa gengur að gefa barni að drekka er ráðlegt að leggja barnið oftar á brjóst og/eða gefa oftar að drekka og minna í einu. Gott er að gefa saltvatnsdropa í nasir og sjúga með nefsugu fyrir gjafir.

– Hafa hærra undir höfði.

Mikilvægt er að reykja ekki nálægt barninu. Óbeinar reykingar geta haft alvarlegar heilsuspillandi afleiðingar og leitt til versnunar á öndunarerfiðleikum.

Á sjúkrahúsi:

– Ef barn drekkur illa gæti þurft að gefa því næringu í gegnum mjóa slöngu um nef (sondu) eða gefa vökva í æð.

– Til að létta barninu öndun gæti þurft að gefa því saltvatnsdropa í nasir og sjúga slím úr vitum.

– Ef barn heldur ekki uppi súrefnismettun í blóði gæti þurft að gefa því súrefni.

– Ef barn hefur astmaöndun fær það innúðalyf sem víkkar lungnaberkjur og léttir á önduninni. Einnig eru stundum notaðar steratöflur eða innúðalyf sem minnka bólgu í berkjum.

– Sýklalyf hjálpa ekki gegn sýkingum af völdum veira. Barn gæti þó þurft sýklalyf fái það eyrnabólgu samfara RS-sýkingunni.

– Barn og foreldrar eru í einangrun.

Hve lengi varir berkjungabólga?
Flest börn sem fá berkjungabólgu ná bata innan tveggja vikna en geta verið lengur með hósta. Barnið getur farið í dagvistun þegar það hefur náð góðum bata, er hitalaust og farið að nærast eðlilega.

Hvað getur þú sjálf/ur gert?

-Ef nef er stíflað er æskilegt að nota saltvatnsdropa í nasir og sjúga slím úr vitum með nefsugu. Hjá stærri börnum má nota dropa sem minnka bjúg í nefi.

-Ef hiti er hár eða særindi vegna hósta er gefið hitalækkandi lyf/verkjalyf samkvæmt leiðbeiningum.

-Ef barn drekkur ekki nóg er ráðlegt að leggja barnið oftar á brjóst og/eða gefa oftar að drekka og minna í einu. Gott er að gefa saltvatnsdropa í nasir og sjúga með nefsugu fyrir gjafir.

-Hafa hærra undir höfði.

Leitaðu þér fljótt aðstoðar ef…

-Barnið fær astmaöndun. Einkenni byrja þá yfirleitt sem kvef og smávægilegum hósta og svo kemur surg, píp eða íl í brjóstið. Hröð öndun og jafnvel erfiði við öndun.

-Barnið sýnir merki um aukna öndunarerfiðleika s.s. hraðari öndun, verri hósta og aukna slímmyndun.

-Barnið drekkur illa og virðist vera að þorna. Merki um það eru t.d. þurr munnslímhúð, minnkuð tára- og þvagframleiðsla og ef barnið léttist.

Leitaðu þér strax aðstoðar ef…

-Barnið þitt fær stutt öndunarhlé eða blámakast vegna kvefsins.