Í stuttu máli

Hvað er svefnvandi barna?

Vandamál með svefn barna þar sem helsta orsökin er ekki tengd líkamlegum sjúkdómum.

Algeng einkenni:

Erfiðleikar við að fara að sofa, vakna upp á næturnar, ruglingur á svefntímum og martraðir.

Greining:

Viðtal við foreldra.

Algengasta meðferð:

Foreldrar fái ráðgjöf (og barnið ef það hefur aldur til).Hvað er svefnvandi barna?

Þegar börn sofa það illa að það hefur áhrif á líðan þeirra og annarra fjölskyldumeðlima. Um það bil 20% foreldra barna undir 5 ára aldri þurfa aðstoð vegna svefnvanda barna sinna og um 7-8 % barna á grunnskólaaldri eiga við svefnvanda að stríða.

Orsök

Orsakir svefnvanda barna eru oftast margþættar og misjafnt hvort þær séu sýnilegar (greinanlegar) eða ekki. Oft eru ákveðin persónueinkenni sem geta einkennt börnin. Börn sem eru auðtrufluð, mjög hreyfivirk eða þurfa langa aðlögun eru í heldur meiri hættu á að sofa illa, sérstaklega á ákveðnum aldri. Svefnvandi er nefnilega einnig aldurstengdur (tengdur ákveðnum þroska). Álag ýmiss konar bæði hjá börnum og hjá foreldrum þeirra og fjölskyldu getur líka haft áhrif.

Einkenni

Einkenni eru stundum aldurstengd. Nýburar gráta oft mikið og þá er talað um grátvanda. Þegar þeir eldast fara tíðar næturvaknanir að vera meira einkennandi. Oft er erfitt að fá leikskólabörn til að fara að sofa. Slæmir draumar koma oft fram á þeim aldri líka. Hjá skólakrökkum eru einkennin oftast að eiga erfitt með að sofna og sofa einn. Einkenni eru þó alltaf einstaklingsbundin og oft margþætt hjá einu og sama barninu.

Greining

Greining á svefnvanda fer alltaf fram í viðtali við foreldra og barnið. Bæði með því að fá góða lýsingu á hvað er í gangi og að átta sig á persónugerð barnsins og aðstæðum fjölskyldunnar.

Meðferð

Meðferð er alltaf einstaklingsbundin. Hún er fólgin í fræðslu, ráðgjöf og hvatningu til foreldra og barns.